Ég risti orðmyndir

og

flétta aftur saman.

Hugmyndir aldrei búnar,

allt í kring er lifandi sköpun.

Við hvern punkt

myndast

fyrirheit um nýtt upphaf.

Aðalheiður Sigursveinsdóttir

Sennilega ekkert sem fær skilgreint hver maður er betur en hið innra líf, langanir og áhugi, orðaforðinn um samt fátæklegur, fellur betur að því sem er fyrir utan.

Fer oftar áfram með hugmyndir sem sökkva ofan í magann og láta mig ekki í friði, kíkja inn við og við, rétt til að sýna sig og sanna hvað það þær eru skemmtilegt. Þær vilja fá að leika sér og láta lofta um sig.  Ég veit hvað það er að hlusta ekki og hunsa þær. Þær verða að endingu eins og biturt gamalmenni sem tala um ef og hefði, verður skuggamyndin af sjálfri sér ef hún á að fá áheyrn.  Fúlasti aftansöngur á endanum. Þannig er það með þær, skrítnar því ég á þær ekki alfarið. Ekkert efni er eiginlega af einu gert, ekkert sem gert er af engu komið. Það er þróun, það er vinnsla, það er samtenging, íblöndun.

Bilið á milli þess sem við skynjum og getum fært í orð er efniviðurinn, útfærsla breytileg flétta. Hugsandi, hlustandi, skrifandi og finna rétta andann í því sem er gert. Með öðrum, oftar ein sest ég niður skrifa, krota, velti fyrir mér, byrja, hlusta eftir því sem kemur til mín, án þess að vita hvað verður. Lokamarkmið flækist oftar fyrir mér hitt, betra að fá að búta til það sem kemur, flétta saman eftir á. Á lokametrum, gjarnan í kringum allt aðra hugmynd.

SÝNINGAR

2021 SAMTAL – LISTASUMAR AKUREYRI – DEIGLAN

2022 Hlutverk – HönnunarMars

MENNTUN:
B.A. Heimspeki
MBA Viðskiptafræði
ACC Markþjálfun
VI Cranial Sacral therapy

Undirbúningur Hönnunarmars 2022
Viskustykki

VISKA+STYKKI

Viska er sennilega fegursta orðmynd mennskunnar. Innri þekkingarbrunnur sem myndast af upplifun, viðbragði, athöfnum, tilraunum, reynslu í gegnum skynjun og skilningarvit en gerjast svo óafvitandi og blandast eldra efni áreynslulaust í huga eigandans. Lifir og hrærist í eigin hugarheimi sem umlykur og síar allt sem hann meðtekur. Allir hugsa sitt, gjarna í bilinu milli anna, oftar en ekki heima við, jafnvel við uppvaskið, verðu til viska.

Viska er án stærðartakmarkana og mælanleika, hún er sem umvefjandi og alltumlykjandi þann sem hana hefur. Líkt og rafeindir í kringum atóm flæðir hún um hugarheima og verður ekki af tekin en hefur um leið hljóðlátt aðdráttaafl. Viska hvorki endanleg né staðbundin heldur síbreytileg og þannig verður hún tilfinnanleg eins og orkuform. Virkjanleg við hlustun, notkun. Viska hvers manns, mennska hans sjálfs er líklega það einasta eitt sem enginn annar fær sneitt né smættað.

Heillandi er hún ein og sér en máttugri en hún í samruna annarrar visku. Því viskan veit að efnisveitan er endalaus eins og skýin á himninum eru óteljandi og ólík, öll jafn mikil ský og öll á leiðinni eitthvert. Þannig mætir hún annarri visku vitandi að aðrar viskur hafa sína eigin visku, afl og flæði.  Það er svampkenndur eiginleiki viskunnar að nema aðra visku og næmnin færir henni forvitni og leikgleði.

Í sjálfbærni sinni fær viskan kraft um leið og hennar fær notið, fær farveg og hljóm um leið og hana þyrstir í að þekkja aðrar visku sem hún mætir. Eins og raddir sem mætast í kraftmiklum söng eflast viska með visku. Þá verða samtölin löng, ævintýrin óvænt, myndbrotin dýpri, hugmyndir verða til, um vefjast um sjálfa sig og eflast.

Hið óvænta lokkar til sín aðrar forvitnar viskur sem verða vitni. Það er eitthvað í bígerð, ómæld viska er svo mögnuð, viðnám gerir henni gott. Það verður jafnvel úr einhver samruni, sameiginleg viska, samviska.

Ef hægt er að lýsa sköpun sem flæði, sem orku sem skapast við samtengingu, reyndar verður hún er ómæld og óræð,við njótum hennar á okkar vegu, drekkum hana í okkur eftir list.  Kannski, já kannski verður einhver viska til, í stykkjatali jafnvel viskustykki, hver veit?

  • Hugverk – samsýning Félags vöru- og iðnhönnuða á HönnunarMars 2022.
  • Lýst var eftir því að hugmyndafræðin, sagan eða húmorinn í verkunum gætu verið í forgrunni.

Sýningin Samtal
Aðalheiður Sigursveinsdóttir

Sjálfstal í hugarheimi, speglar

Hver er maður annar en eigin þankagangur?  Hugurinn er óstýrilátur á stundum, heldur sínu fram, mælir út og miðar við, malar og gefur frá sér merki. Galar hættumerki, hellist yfir þegar minnst varir.

Sjálfstal, spegilmyndir sem við höfum fengið að láni, svo sterkbyggðar að þær endurspeglast frá okkur á sama tíma.  Lúmskar og óstýrilátar raddir sjálfstalsins eru sjaldnast orðaðar upphátt, nema svona óvart þegar allt er að fara í skrúfuna.  Heildarmyndin óræð með eindæmum, myndir fengnar að láni.  Spegilmyndir sem hugsanlega mynda hinn eiginlega filter sjálfsins. Samferðafólki sýnilegar á köflum, samt óræddar.

Í speglunum birtist setningabútur úr sjálfstalinu, aðrir fá að spegla sig um leið og þeirra eigin spegilmynd mætir þeim.  Fegurðin er óumflýjanleg þegar við tengjum við aðra mennsku, heimfærum og færum okkur nær.

  • Sýnt á sýningunni Samtal, Listasumar á Akureyri, Deiglan 2021.

Stærð 65 x 65

Framar

Við efumst stundum um að stéttaskipting ríki í samfélaginu okkar, gerum lítið úr því, horfum kannski í hina áttina.

Við flokkum okkur og röðum eftir mismunandi leiðum, stundum eftir sjáanlegum og skiljanlegum merkimiðum starfstitla og stundum eftir óskrifuðum reglum. Flokkun á stundum furðuleg.

Það eru mismunandi rendur á öxlunum, ákveðin en ómerkt sæti í mötuneytum, í flugrútum sitja flugmennirnir fremst en flugfreyjur aftar.  Það er skipt upp í raðir innan vinnustaða, stundum milli hæða, inn eftir göngum, hornin eftirsótt.

Framar eru 14 myndræn textaverk, innan polaroid ramma.

Sýnt á sýningunni Samtal, Listasumar á Akureyri, Deiglan 2021.

Þegar ég var Sýningin Samtal
Þegar ég var 2

ÞEGAR ÉG VAR

Innsetning,  gamall tekk símastól, með áföstu borði og skúffu. Á borðinu er grár Ericsson skífusími, símaskrá, minnisblað og gulur blýantur. Uppsetning sem var dæmigerð fyrir mörg íslensk heimili hér á landi á 7. áratug síðustu aldar.

Þegar símtólinu er lyft upp dynur djúp rödd yfirvaldsins sem oftar sagði  ÉG en viltu. Eintalið er yfirvaldsins sem ekki vildi hlusta heldur segja,  sem ekki vildi fólk heldur hendur til að vinna, sem forðaðist tilfinningar og tengsl, varðaði ekkert um einkahagi fólks eða líðan. Slíkt átti ekki erindi á þeirra vinnustað.

Frásagnir fengnar úr fjölbreyttri flóru yfirmanna sem orðið hafa á vegi mínum og samferðafólks. Já, fólksins sem átti að þakka fyrir að fá að vinna hjá yfirvaldinu.

Yfirvaldið er túlkað af Herra Hnetusmjör (Árna Páli Áranasyni).

Þrátt fyrir að yfirvaldið vilji gjarnan eiga lokaorðið gefst gestum færi á að hringja í símanúmer og deila sinni frásögn af eftirminnilegum yfirmönnum. Sem fara í sögusarp yfirvaldsins: „hlustaðu nú“ þar sem sýningargestum var gefinn kostur á því að hringja í símanúmer og skilja eftir sínar minningar af yfirvaldinu sem var og stjórnarháttum fortíðar. Kannski hefur þessum hluta af þjóðararfinum ekki verið gerð skil til þessa.  Kannski svolítið heimild á biðstofunni einmitt núna á meðan beðið er eftir samtali áður en minningin hverfur og kemur aldrei aftur.

  • Sýnt á sýningunni Samtal, Listasumar á Akureyri, Deiglan 2021.

VINA

VINA

Hlýlegt orð sem fékk gengisfellingu í yfirlæti valdboða með árunum. VINA trónir ofan við innsetningu “heyrðu mig nú” þar sem endurómaði eintal yfirboðara úr fortíðinni

VINA myndaði snúinn áttavita innan sýningarrýmissins, sem hafði skírskotun til Akureyrar og áttaðra bæjarbúa.  I stendur fyrir innbærinn sem er eins og fínni forstofa bæjarins, tekur á móti gestum sínum í anddyri Drottningabrautar, ljósastaurar innbæjarins þeir fínustu, endurgerð húsanna bera glæstri sögu vitni.   Til austurs er sjaldan vísað, heldur upp á Brekku, þar sem helstu merkis byggingar hafa verið reistar, kennileitin fjölmörg.   Norðan við ána er Glerárhverfið sem hefur sína sögu, er samt sem áður svo sjálfstætt, einstætt og svolítið fráhverft frá hinum eiginlega miðbæjarkjarna, amk áður fyrr. Einkennileg stéttaskipting innan bæjarins.  Oddeyrin hin eiginlega uppspretta iðnaðar innan bæjarins, bæjarhluti sem hefur blandaða byggð, hefur verið ásetningasteinn í uppbyggingu, liggur lægst, hefur hafnir, iðnað, þangað koma skemmtiferðaskipin að landi.  Sýningin haldin í fyrrum húsakynnum KEA sem var allt um lykjandi gilið.

  • Sýnt á sýningunni Samtal, Listasumar á Akureyri, Deiglan 2021.

Spil

Orða – leikur forseta og framíkalla

 

Orða er spil fyrir alla fjölskylduna, orðaleikur sem gengur út á að lýsa, útskýra og tengja við algeng orð. Í spilinu eru notuð fjölmörg orð sem hafa fleiri en eina merkingu sem gerir möguleika leikmanna fjölbreytta. Orða inniheldur 400 spjöld og kassinn inniheldur allar leiðbeiningar.

Leturgerð spilsins er sérhönnuð fyrir lesblinda, þróuð, hönnuð og framleidd á Íslandi.

Útgefandi: Lóðs ehf, 2020
Höfundur: Aðalheiður Sigursveinsdóttir
Teiknari:  Arnfinnur Rúnar Sigmundsson

Sölustaðir: Spilavinir, Sjoppan Vöruhús

Aðalheiður Sigursveinsdóttir

Orð með sporð

Merkileg þessi orð. Þau hafa flækst fyrir mér í gegnum tíðina og valdið hugarangri, stafirnir skrítnir og réttritun vanfundin.

Orð eru eins og merkimiði sem var búinn til fyrir löngu, af einhverjum sem enginn þekkir. Við viljum meina að við vitum hvað hann meinti. Verður eins og út krassaður post-it-miði drekkhlaðinn hugmyndum. Ef til vill er betra að nota þessi orð þrátt fyrir allt því það sem er ekki fært bókar hefur víst vart gerst. Mögulega skrifuð niður af einhverjum sem ákvað að segja sína sögu. Lesin af öðrum sem á ekki annarra kosta völ en tengja við sína sögu og gefa sér eitthvað fylliefni í gloppurnar eins og holur í malarvegi.

Orðspor er svo eins og orð með sporð, höfundur er óræður, þekktur fyrir að tala umtalsvert, umtalaður og talandi um fólk. Eins og sporgöngumaður orðaflaums sem síðar myndaði farveg orðspors.

Órjúfanlegur hluti menningar umtalið og orðsporið eða er orðsporið, sporið sem við erum alltaf að feta til að fara ekki út af sporinu? Orðsporið hið dýrmæta dýrmæti sem alls ekki má flekka, það má ekki koma kusk á flibbann, fólk gæti notað orð sín um þig. Kannski er orðsporið hið raunverulega spor þess sem glímir við sitt eigið sjálfstal þakið ljósi eða falið í myrkri. Hvernig er undirlagið ef við sporum eigið orðspor út?  Er það mögulega eins og sletturnar eftir partýið, sokkarnir klístrist við gólfið, best að þrífa áður en gesti ber að garði.